Hvað segir Biblían um húðflúr?
Svar Biblíunnar
Biblían minnist aðeins einu sinni á húðflúr. Í 3. Mósebók 19:28 segir: „Þér skuluð eigi ... gjöra hörundsflúr á yður.“ (Biblían 1981) Guð gaf Ísraelsþjóðinni þessi fyrirmæli og aðgreindi hana þannig frá nágrannaþjóðunum sem létu húðflúra sig með nöfnum og táknum guða sinna. – 5. Mósebók 14:2.
Ætti kristið fólk að fá sér húðflúr?
Fyrirmælin, sem bönnuðu hörundsflúr, voru hluti af lögmálinu sem Ísraelsmenn fengu og eru því ekki bindandi fyrir kristna menn nú á tímum. Þess vegna þarf hver og einn að taka eigin ákvörðun. (Galatabréfið 6:5; Kólossubréfið 2:13, 14) Hins vegar geta eftirfarandi biblíuvers hjálpað þér að rökhugsa málið:
„Konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti.“ (1. Tímóteusarbréf 2:9, Biblían 1981) Þessi meginregla á að sjálfsögðu bæði við karla og konur. Við ættum ekki að hneyksla aðra eða draga óhóflega athygli að sjálfum okkur.
„Bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) Reyndu að gera þér grein fyrir hvers vegna þig langar til að fá húðflúr. Ef það er til að elta ákveðna tísku eða sýna að þú tilheyrir ákveðnum hóp skaltu muna að húðflúr er mun varanlegra en smekkur og tilfinningar. Sumir vilja skapa sér ákveðna ímynd eða sýna hvað þeir eru sjálfstæðir. Aðrir fá sér húðflúr til að sýna að þeir geti gert það sem þeim sýnist við líkama sinn. Íhugaðu hvaða hvatir búa að baki löngun þinni – það getur hjálpað þér að taka skynsamlega ákvörðun. – Orðskviðirnir 4:7.
„Áform hins iðjusama færa arð en hroðvirkni endar í örbirgð.“ (Orðskviðirnir 21:5) Oft er ákvörðun um að fá húðflúr tekin í flýti, en getur þó oft haft langvarandi áhrif á samband við annað fólk og atvinnu. Það getur verið dýrt og sársaukafullt að láta fjarlægja húðflúr. Bæði kannanir og rífandi gangur fyrirtækja, sem fjarlægja húðflúr, bendir til þess að stór hópur fólks, sem fær sér húðflúr, sér eftir því síðar meir.