Hvað er fyrirgefning?
Svar Biblíunnar
Gríska orðið í Biblíunni sem er þýtt „fyrirgefning“ merkir bókstaflega ‚að gefa eftir‘ eins og þegar einhver krefst ekki greiðslu vegna skuldar. Jesús notaði þessa líkingu þegar hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Fyrirgefðu syndir okkar því að við fyrirgefum líka öllum sem skulda okkur.“ (Lúkas 11:4) Og í dæmisögunni um miskunnarlausa þjóninn lagði Jesús fyrirgefningu einnig að jöfnu við það að gefa upp skuld. – Matteus 18:23–35.
Við fyrirgefum öðrum þegar við látum af gremju og föllum frá öllum kröfum um bætur fyrir skaðann og sársaukann sem misgerðin olli. Biblían kennir að sönn fyrirgefning byggist á óeigingjörnum kærleika. Hún segir að kærleikurinn ‚haldi ekki reikning yfir rangindi‘. – 1. Korintubréf 13:4, 5.
Fyrirgefning er ekki …
að horfa fram hjá mótgerðinni. Biblían fordæmir reyndar þá sem segja að ill verk séu skaðlaus og boðleg. – Jesaja 5:20.
að láta sem ekkert hafi gerst. Guð fyrirgaf Davíð konungi alvarlegar syndir en hann hlífði honum ekki við afleiðingum gerða sinna. Guð lét jafnvel segja frá syndum Davíðs í Biblíunni þannig að við getum lesið um þær nú á dögum. – 2. Samúelsbók 12:9–13.
að leyfa öðrum að koma illa fram við sig. Segjum til dæmis að þú lánir einhverjum peninga en hann sóar þeim og getur ekki borgað þér til baka eins og hann lofaði. Honum þykir það mjög leitt og biður þig afsökunar. Þú gætir ákveðið að fyrirgefa honum með því að ala ekki á gremju, minnast ekki á málið aftur og jafnvel gefa honum upp skuldina. Þótt þú gerðir þetta gætirðu kosið að lána honum aldrei aftur pening. – Sálmur 37:21; Orðskviðirnir 14:15; 22:3; Galatabréfið 6:7.
að fyrirgefa án þess að ástæða sé til þess. Guð fyrirgefur ekki fólki sem gerir vísvitandi eitthvað hræðilegt og neitar að viðurkenna mistök sín, bæta ráð sitt og biðja þá afsökunar sem þeir særðu. (Orðskviðirnir 28:13; Postulasagan 26:20; Hebreabréfið 10:26) Þeir sem eru iðrunarlausir gera sig að óvinum Guðs og hann ætlast ekki til þess að við fyrirgefum þeim sem hann hefur ekki fyrirgefið. – Sálmur 139:21, 22.
Hvað ef einhver hefur sært þig mjög mikið og vill ekki biðjast afsökunar eða viðurkenna það sem hann gerði? Biblían gefur þetta ráð: „Láttu af reiðinni og segðu skilið við heiftina.“ (Sálmur 37:8) Þótt þú afsakir ekki misgerðina geturðu ákveðið að láta reiðina ekki ná tökum á þér. Treystu því að Guð muni draga viðkomanda til ábyrgðar. (Hebreabréfið 10:30, 31) Þú getur líka fundið huggun í loforði Guðs um framtíðina þegar öll tilfinningaleg sár munu gróa. – Jesaja 65:17; Opinberunarbókin 21:4.
að „fyrirgefa“ allt sem manni finnst gert á hlut manns. Það er gott að spyrja hvort við höfum yfir höfuð einhverja ástæðu til að móðgast eða vera sár í stað þess að velta því fyrir sér hvort maður ætti að fyrirgefa. Biblían segir: „Vertu ekki fljótur til að móðgast því að gremja er einkenni heimskingja.“ – Prédikarinn 7:9, neðanmáls.
Hvernig get ég fyrirgefið?
Mundu hvað fyrirgefning felur í sér. Þú ert ekki að segja að röng hegðun sé í lagi eða hafi aldrei átt sér stað – þú ert einfaldlega að losa þig við gremjuna.
Horfðu á kosti þess að fyrirgefa. Að segja skilið við reiði og gremju getur hjálpað þér að halda rónni, bætt heilsuna og aukið hamingju þína. (Orðskviðirnir 14:30; Matteus 5:9) Það sem skiptir meira máli er að Guð fyrirgefur syndir þínar þegar þú fyrirgefur öðrum. – Matteus 6:14, 15.
Sýndu samkennd. Við erum öll ófullkomin. (Jakobsbréfið 3:2) Við viljum að aðrir fyrirgefi okkur þegar okkur verður á og eins ættum við að fyrirgefa mistök annarra. – Matteus 7:12.
Vertu sanngjarn. Þegar um minniháttar árekstra er að ræða gæti verið gott að fylgja ráði Biblíunnar um að ‚halda áfram að umbera hvert annað‘. – Kólossubréfið 3:13.
Bregstu skjótt við. Reyndu að fyrirgefa eins fljótt og þú getur í stað þess að láta reiðina grafa um sig. – Efesusbréfið 4:26, 27.