Hoppa beint í efnið

Notaði Guð þróun til að skapa hinar ýmsu tegundir lífs?

Notaði Guð þróun til að skapa hinar ýmsu tegundir lífs?

Svar Biblíunnar

 Nei. Biblían tekur skýrt fram að Guð hafi skapað mennina og mismunandi ,tegundir‘ plantna og dýra. a (1. Mósebók 1:12, 21, 25, 27; Opinberunarbókin 4:11) Í Biblíunni segir líka að allt mannkynið komi af Adam og Evu, fyrstu foreldrum okkar. (1. Mósebók 3:20; 4:1) Frásaga hennar styður ekki þá hugmynd að Guð hafi notað þróun til að skapa mismunandi tegundir lífs. Biblían stangast samt sem áður ekki á við vísindalegar athuganir sem sýna fram á breytileika innan hverrar tegundar.

 Notaði Guð þróun?

 Þeir sem trúa að Guð hafi notað þróun til að skapa hinar ýmsu tegundir lífs hafa ólíkar hugmyndir um hvernig hann á að hafa farið að því. Samkvæmt alfræðibókinni Encyclopædia Britannica halda sumir að „náttúruval sé þáttur í ráðstöfun Guðs til að stýra efnisheiminum“.

 Sú hugmynd að Guð hafi notað þróun getur einnig falið í sér eftirfarandi:

  •   Allar lífverur koma af sameiginlegum forföður sem var uppi endur fyrir löngu.

  •   Ein tegund getur þróast í allt aðra.

  •   Þegar upp er staðið stendur Guð á bak við þróunina.

 Samræmist þróun Biblíunni?

 Ef Guð notaði þróun við að skapa myndi það þýða að sköpunarsaga Biblíunnar í 1. Mósebók væri ónákvæm. En Jesús benti á að frásagan væri söguleg staðreynd. (1. Mósebók 1:26, 27; 2:18–24; Matteus 19:4–6) Í Biblíunni segir að áður en Jesús kom til jarðar hafi hann búið á himni með Guði og átt þátt í að skapa allt. (Jóhannes 1:3) Hugmyndin um að Guð hafi notað þróun við sköpunina samræmist þess vegna ekki kenningum Biblíunnar.

 Hvað um eiginleika plantna og dýra til að aðlagast?

 Biblían útskýrir ekki hversu mikill breytileiki getur orðið innan tegundar. Það sem hún segir stangast ekki heldur á við þá staðreynd að hin ólíku dýr og plöntur sem Guð skapaði geta breyst þegar þau fjölga sér eða aðlagast nýju umhverfi. Nýjar tegundir myndast samt ekki þótt sumir segja slíka aðlögun vera þróun.

a Orðið sem er þýtt „tegund“ í Biblíunni hefur mun breiðari merkingu en vísindahugtakið „tegund“. Það sem vísindamenn kjósa að kalla þróun nýrrar tegundar er oft ekki annað en breytileiki innan „tegundar“ eins og hugtakið er notað í frásögunni í 1. Mósebók.