Hverjir voru ríki maðurinn og Lasarus?
Svar Biblíunnar
Ríki maðurinn og Lasarus eru sögupersónur í einni af ræðum Jesú. (Lúkas 16:19–31) Í þessari sögu standa þessir menn fyrir tvo hópa: (1) stolta trúarleiðtoga á tímum Jesú og (2) auðmjúkt almúgafólk sem brást vel við boðskap Jesú.
Í þessari grein
Hvað sagði Jesús um ríka manninn og Lasarus?
Í 16. kafla Lúkasar lýsir Jesús tveim mönnum sem upplifðu róttækar breytingar á aðstæðum sínum.
Svona er sagan í stuttu máli: Ríkur maður lifði í vellystingum. Betlari að nafni Lasarus var settur við hliðið á húsi ríka mannsins og hann vonaðist til að fá eitthvað af matnum sem féll af borði ríka mannsins. Þar kom að Lasarus dó og englar báru hann til Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Í sögunni er ástandi beggja mannanna lýst þannig að þeir eigi meðvitaða tilveru eftir dauðann. Ríki maðurinn sem er dáinn kvelst í logandi eldi og biður Abraham að senda Lasarus til að kæla tungu sína með vatnsdropa á fingurgómi sínum. Abraham neitar honum um bón sína og segir að nú hafi orðið alger viðsnúningur á kjörum þeirra og að mikil gjá hafi myndast á milli þeirra sem ekki er hægt að komast yfir.
Gerðist sagan í raun og veru?
Nei. Þetta er dæmisaga sem Jesús sagði til að koma ákveðinni kennslu til skila. Fræðimenn viðurkenna að þetta sé dæmisaga. Fyrirsögn í Viðeyjarbiblíu frá 1841 segir til dæmis að þetta sé dæmisaga. Og kaþólska Jerúsalembiblían segir í neðanmálsathugasemd að þetta sé „dæmisaga í sögulíki sem vísi ekki til neinna sögulegra persóna“.
Var Jesús að fjalla um líf eftir dauðann? Átti hann við að sumir færu í vítisloga við dauða sinn og að Abraham og Lasarus væru á himnum? Margt sýnir fram á að það geti ekki staðist.
Til dæmis:
Hlyti eldurinn ekki þurrka upp vatndropann á fingurgómi Lasarusar ef ríki maðurinn hefði verið á raunverulegum kvalarstað?
Jafnvel þótt hann gufaði ekki upp, nægði þá einn vatnsdropi til að lina þjáningar hans til langframa í bókstaflegum eldi?
Hvernig átti Abraham að geta verið á lífi á himnum fyrst Jesús hafði tekið það skýrt fram að enginn hefði enn farið til himna þegar þessi dæmisaga var sögð. – Jóhannes 3:13.
Styður sagan kenninguna um brennandi víti?
Nei. Þó að þetta sé dæmisaga vilja sumir meina að hún tákni hugmyndina um að gott fólk fari til himna og vont fólk sé kvalið í helvíti. a
Er þessi niðurstaða á rökum reist? Nei.
Kenningin um helvíti samræmist ekki því sem Biblían segir um ástand hinna dánu. Biblían segir til dæmis ekki að allt gott fólk upplifi sælu á himnum þegar það deyr eða að vont fólk kveljist í víti. Á hinn bóginn segir hún skýrum stöfum: „Þeir sem lifa vita að þeir munu deyja en hinir dánu vita ekki neitt.“ – Prédikarinn 9:5.
Hvað merkir sagan um ríka manninn og Lasarus?
Sagan fjallar um tvo hópa fólks sem voru í þann mund að upplifa gríðarlegar breytingar á kringumstæðum sínum.
Ríki maðurinn merkir greinilega trúarleiðtoga Gyðinga „sem voru fégjarnir“. (Lúkas 16:14) Þeir hlustuðu á Jesú en stóðu gegn boðskap hans. Þessir menn litu niður á óbreytta alþýðuna. – Jóhannes 7:49.
Lasarus merkir alþýðufólk sem tók á móti boðskap Jesú og var fyrirlitið af trúarleiðtogum Gyðinga.
Breyttar kringumstæður voru afdrifaríkar fyrir báða hópana.
Trúarleiðtogar Gyðinga héldu að þeir nytu velþóknunar Guðs. En þegar Guð hafnaði þeim vegna þess að þeir tóku ekki við boðskap Jesú upplifðu þeir það sem kalla mætti „dauða“. Og boðskapur Jesú og fylgjenda hans kvaldi þá. – Matteus 23:29, 30; Postulasagan 5:29–33.
Alþýðan sem hafði verið vanrækt af trúarleiðtogunum um langt skeið naut nú velþóknunar. Margir tóku á móti boðskap ritninganna sem Jesús kenndi og nutu góðs af. Nú stóð þeim til boða að njóta velþóknunar Guðs að eilífu. – Jóhannes 17:3.
a Guðbrandsbiblía notar til dæmis orðið „helvíti“ til að lýsa staðnum þar sem ríki maðurinn var eftir dauða sinn. En gríska orðið á frummálinu (Hades) sem er notað í Lúkasi 16:23 merkir einfaldlega sameiginlega gröf mannkyns.