UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég sigrast á feimni?
Slæmu fréttirnar: Feimni getur komið í veg fyrir að þú eignist góða vini og upplifir margt gott.
Góðu fréttirnar: Feimni er ekki alltaf slæm. Hún getur hjálpað þér að hugsa áður en þú talar, taka betur eftir og hlusta betur.
Betri fréttir: Feimni er ekki óumbreytanlegur eiginleiki þannig að þú getur haft stjórn á því hversu mikil áhrif hún hefur á líf þitt. Í þessari grein geturðu séð hvernig þú ferð að.
Horfstu í augu við það sem þú ert hræddur við
Feimni getur fengið þig til að óttast þá tilhugsun að tala við fólk augliti til auglitis. Fyrir vikið gætirðu upplifað þig einangraðan frá öðru fólki eins og þú værir einn í dimmu herbergi. Það getur verið skelfilegt. En ef þú horfist í augu við það sem þú ert hræddur við gætirðu uppgötvað að þú þarft ekki að vera hræddur. Skoðum þrjú dæmi.
Ótti 1: „Ég veit ekki hvað ég á að tala um.“
Staðreynd: Fólk man frekar eftir því hvernig þú lætur því líða heldur en hvað þú segir. Þú getur sigrast á óttanum með því að æfa þig í að hlusta og hafa einlægan áhuga á því sem aðrir hafa að segja.
Til umhugsunar: Hvers konar vini vilt þú eiga – þá sem tala stanslaus eða þá sem eru góðir í að hlusta?
Ótti 2: „Fólki mun finnast ég leiðinlegur.“
Staðreynd: Fólk hefur skoðun á þér hvort sem þú ert feiminn eða ekki. Þú getur sigrast á óttanum og hjálpað fólki að mynda sér betri skoðun á þér, ef þú tjáir þig og leyfir því að sjá hvaða mann þú hefur að geyma.
Til umhugsunar: Gæti verið að þú værir ósanngjarn í garð annarra ef þú álitir að allir dæmdu þig á neikvæðan hátt?
Ótti 3: „Ég verð vandræðalegur ef ég segi eitthvað vitlaust.“
Staðreynd: Það gerist hjá öllum. Þú getur sigrast á óttanum með því að líta á glappaskot sem tækifæri til að sýna öðrum að þú tekur sjálfan þig ekki of hátíðlega.
Til umhugsunar: Líður þér ekki vel með fólki sem viðurkennir að það er ekki fullkomið?
Vissir þú? Sumt fólk heldur að það sé ekki feimið vegna þess að það sendir oft SMS. En það er auðveldara að byggja upp ekta vináttu við aðra þegar þú talar augliti til auglitis við þá. Sálfræðingurinn Sherry Turkle skrifar: „Það er þegar við hlustum á hvert annað augliti til auglitis að við tengjumst hvert öðru best.“ a
Áætlun
Forðastu samanburð. Þú þarft ekki að breyta eðli þínu og verða mjög mannblendinn. En þú gætir sett þér það markmið að verða minna feiminn þannig að þú farir ekki á mis við að eiga góða vini og upplifa ýmislegt.
„Samtöl þurfa ekki að vera löng og athyglin þarf ekki öll að beinast að þér. Kynntu þig bara fyrir einhverjum nýjum eða spyrðu fáeinna einfaldra spurninga.“ – Alicia.
Meginregla Biblíunnar: „Hver og einn ætti að rannsaka eigin verk án þess að bera sig saman við aðra. Þá hefur hann ástæðu til að gleðjast yfir því sem hann gerir sjálfur.“ – Galatabréfið 6:4.
Vertu eftirtektarsamur. Taktu eftir hvernig þeir sem eru félagslyndir tala við aðra. Hvað gengur vel hjá þeim? Hvað gengur ekki eins vel? Hvaða færni hafa þeir sem þú gætir tileinkað þér?
„Taktu eftir því hvernig sumt fólk á auðvelt með að eignast vini og lærðu af því. Fylgstu með hvað það gerir og segir þegar það hittir einhvern í fyrsta sinn.“ – Aron.
Meginregla Biblíunnar: „Járn brýnir járn og maður brýnir mann.“ – Orðskviðirnir 27:17.
Spyrðu spurninga. Góð leið til að hefja samræður er að spyrja spurninga því að fólk er yfirleitt ánægt að fá að segja sína skoðun á málefnum. Þá beinirðu líka athyglinni að öðru en sjálfum þér.
„Ef þú undirbýrð þig fyrirfram geturðu dregið úr kvíðanum. Þú getur jafnvel fundið fáein umræðuefni eða spurningar áður en þú ferð í partí þannig að það sé ekki eins stressandi að hitta nýtt fólk.“ – Alana
Meginregla Biblíunnar: „Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.
a Úr bókinni Reclaiming Conversation.