UNGT FÓLK SPYR
Stefnumót – 1. hluti: Er ég tilbúinn til að fara á stefnumót?
Hver er tilgangurinn með stefnumóti?
Sumir líta á stefnumót sem einhvers konar afþreyingu. En stefnumót eru ekki saklaus skemmtun eða bara leið til að fá athygli frá hinu kyninu heldur hefur það ákveðinn tilgang. Í þessari grein er lögð áhersla á að tíminn sem par notar á stefnumótum er til að komast því hvort þau eigi samleið sem hjón.
Þegar ungt fólk fer á stefnumót ætti það að leiða til ákvörðunar þegar fram líða stundir – annaðhvort gengur það í hjónaband eða bindur enda á rómantískt samband. Þegar þú ferð út í samband ættirðu að vera undir það búinn að það geti farið á hvorn veginn sem er.
Kjarni málsins: Ef þú heldur að þú sért tilbúinn að fara á stefnumót ætti það líka að þýða að þú teljir þig tilbúinn til að giftast.
Ertu tilbúinn til að fara á stefnumót?
Það að fara reglulega á stefnumót getur leitt til hjónabands. Þess vegna væri viturlegt af þér að hugleiða hvaða eiginleika þú kemur með inn í sambandið. Veltu eftirfarandi fyrir þér:
Samskipti innan fjölskyldunnar. Framkoma þín við foreldra þína og systkini, sérstaklega þegar þú ert undir álagi, gefur vísbendingu um það hvernig þú munt koma fram við maka þinn.
Meginregla Biblíunnar: „Losið ykkur við hvers kyns biturð, reiði, bræði, öskur og svívirðingar, og allt annað skaðlegt.“ – Efesusbréfið 4:31.
Spyrðu þig: Myndu foreldrar mínir og systkini segja að ég kæmi vel fram við þau? Þegar ósætti kemur upp við einhvern í fjölskyldunni er ég þá fær um að ræða málin rólega eða æsi ég mig upp og fer að rífast?
Fórnfýsi: Í hjónabandi þarf maður oft að láta óskir sínar víkja fyrir óskum maka síns.
Meginregla Biblíunnar: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.
Spyrðu þig: Þarf ég alltaf að ná mínu fram? Finnst öðrum ég vera sanngjarn? Hvernig hef ég sýnt að ég tek þarfir annarra fram yfir mínar eigin?
Auðmýkt. Góður maki viðurkennir mistök sín og biðst einlæglega afsökunar.
Meginregla Biblíunnar: ‚Við gerum öll mistök margsinnis.‘ – Jakobsbréfið 3:2, neðanmáls.
Spyrðu þig: Á ég auðvelt með að viðurkenna mistök mín eða kem ég með afsakanir? Er ég ofurviðkvæmur fyrir uppbyggilegri gagnrýni?
Fjármál. Peningar eru ein algengasta orsök deilna milli hjóna en sá sem lærir að fara vel með þá getur afstýrt þessum vanda.
Meginregla Biblíunnar: „Ef einhver ykkar vill byggja turn, sest hann þá ekki fyrst niður og reiknar kostnaðinn til að kanna hvort hann hafi efni á að fullgera hann?“ – Lúkas 14:28.
Spyrðu þig: Hef ég stjórn á eyðslunni eða er ég oft í skuld? Hvernig hef ég sýnt fram á að ég kunni að fara með peninga?
Andlegar venjur. Ef þú ert vottur Jehóva ættirðu að hafa reglu á biblíunámi þínu og samkomusókn.
Meginregla Biblíunnar: „Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ – Matteus 5:3.
Spyrðu þig: Axla ég sjálfur ábyrgð á andlegri heilsu minni? Læt ég andlegar venjur ganga fyrir eða læt ég annað trufla mig?
Kjarni málsins: Sá sem þú ætlar að giftast á góðan maka skilið. Ef þú vinnur markvisst að því að verða þess konar manneskja eru allar líkur á að þú laðir að þér einhvern sem er með sömu markmið og þú.