UNGT FÓLK SPYR
Hvað ætti ég að vita um birtingu mynda á netinu?
Þú ert í frábæru fríi og þig langar til að lýsa því fyrir vinum þínum. En hvernig? Ætlarðu að
senda hverjum og einum póstkort?
skrifa öllum vinum þínum tölvupóst?
deila myndum á netinu?
Þegar afi þinn og amma voru á þínum aldri var A eflaust eini valkosturinn.
Þegar foreldrar þínir voru á þínum aldri hefur B kannski verið möguleiki.
Nú myndi margt ungt fólk, sem má deila myndum á netinu, velja valkost C. Ert þú í þeirra hópi? Ef svo er getur þessi grein hjálpað þér að varast nokkrar gildrur.
Hverjir eru kostirnir?
Það er fljótlegt. „Þegar ég hef nýlokið frábæru ferðalagi eða skemmt mér vel með vinum mínum, get ég deilt myndum strax á meðan allt er enn í fersku minni.“ – Melanie.
Það er hentugt. „Það er miklu þægilegra að skoða nýjustu myndirnar sem vinir mínir deila á netinu en að nota tölvupóst til að athuga hvað er að frétta af þeim.“ – Jordan.
Það hjálpar manni að halda sambandi. „Sumir vinir mínir og ættingjar búa langt í burtu. Ef þeir deila myndum oft og ég skoða oft, er eins og ég hitti þá á hverjum degi. – Karen.
Hverjar eru hætturnar?
Öryggi þitt gæti verið í hættu. Ef myndavélin þín er með staðsetningarstillingu (geotagging), gætu myndirnar sem þú deilir gefið meiri upplýsingar en þú ætlaðir þér. Á vefsíðunni Digital Trends segir: „Með því að deila á netinu myndum og öðru margmiðlunarefni sem sýnir nákvæma staðsetningu, getur ókunnugt fólk, sem hefur sérstakan hugbúnað og rangar hvatir, fundið út hvar þú ert staddur.“
En að sjálfsögðu hafa sumir afbrotamenn meiri áhuga á því hvar þú ert ekki. Samkvæmt Digital Trends brutust þrír þjófar einu sinni inn í 18 íbúðir þegar enginn var heima. Hvernig gátu þeir vitað að enginn yrði heima? Þeir fóru á Netið og röktu ferðir íbúanna með því skoða myndir sem sýna staðsetningu. (Sú aðferð er kölluð ,cybercasing‘.) Þjófarnir höfðu á brott með sér verðmæti sem voru meira en 100.000 bandaríkjadala virði.
Þú gætir lent á dónalegu efni. Sumt fólk hefur enga sómatilfinningu og birtir hvað sem er, hvar sem er. Unglingsstúlka sem heitir Sara segir: „Maður getur lent í klandri við að skoða síður fólks sem maður þekkir ekki. Það er eins og að reyna að rata í ókunnugri borg án landakorts. Þá er ólíklegt að maður komist á áfangastað.“
Tíminn getur hlaupið frá þér. „Það er auðvelt að verða niðursokkinn í að skoða nýjustu myndirnar og lesa athugasemdir allra,“ segir stúlka sem heitir Yolanda. „Það getur farið þannig að maður sé stöðugt að líta á símann, bara til að athuga það nýjasta.“
Unglingsstúlka sem heitir Samantha tekur undir þetta. Hún segir: „Ég verða að hafa stjórn á því hvað ég nota mikinn tíma á samfélagsmiðlum. Maður verður að hafa sjálfstjórn ef maður ætlar að deila myndum á netinu.“
Það sem þú getur gert
Vertu staðráðinn í að forðast hneykslanlegt efni. Í Biblíunni segir: „Ég vil ekki hafa illvirki fyrir augum.“ – Sálmur 101:3.
„Ég athuga reglulega efnið sem þeir sem ég fylgi deila, og ef mér finnst efnið vera óviðeigandi hætti ég að fylgja þeim.“ – Steven.
Forðastu samskipti við þá sem hafa ekki sömu gildi og þú, því þeir geta grafið undan siðferðilegum vörnum þínum. Í Biblíunni segir: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Korintubréf 15:33.
„Ekki fylgja vinsælum myndasíðum (photo trends) bara af því þær eru vinsælar. Á slíkum síðum eru einmitt oft blótsyrði, nekt og annað dónalegt efni.“ – Jessica.
Takmarkaðu hvað þú notar mikinn tíma til að skoða og deila myndum. Í Biblíunni segir: „Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund.“ – Efesusbréfið 5:15, 16.
„Ég hætti að fylgja þeim sem deila allt of mörgum myndum. Til dæmis ef einhver fer á ströndina og deilir 20 myndum af sömu skelinni. Ég er ekki að grínast. Það er of tímafrekt að skoða allar þessar myndir.“ – Rebekah.
Fullvissaðu þig um að myndirnar sem þú deilir gefi ekki í skyn að þú sért of upptekinn af sjálfum þér. Biblíuritarinn Páll segir: „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber.“ (Rómverjabréfið 12:3) Ekki halda að allir vinir þínir heillist af myndunum af þér og því sem þú gerir.
„Sumir birta endalaust myndir af sjálfum sér. Ef við erum vinir, þá veit ég hvernig þú lítur út – það þarf ekki alltaf að minna mig á það.“ – Allison.