Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég er ekki lengur ofbeldismaður“

„Ég er ekki lengur ofbeldismaður“
  • Fæðingarár: 1973

  • Föðurland: Úganda

  • Forsaga: Siðlaus og ofbeldisfullur drykkjumaður

FORTÍÐ MÍN

 Ég fæddist í héraðinu Gomba í Úganda. Þar var mikil fátækt. Við þurftum að notast við olíulampa á kvöldin þar sem ekkert rafmagn var í bænum.

 Foreldrar mínir voru bændur og höfðu flust til Úganda frá Rúanda. Þau ræktuðu kaffi og banana og úr banönunum brugguðu þau vinsælan drykk sem kallast waragi. Foreldrar mínir héldu líka hænur, geitur, svín og kýr. Menningin sem ég ólst upp við gerði konum ekki hátt undir höfði. Ég áleit því að konur ættu að hlýða eiginmönnum sínum í einu og öllu og mættu aldrei tjá skoðanir sínar.

 Tuttugu og þriggja ára gamall flutti ég til Rúanda. Þar stundaði ég næturklúbba með jafnöldrum mínum. Ég mætti svo oft á einn þeirra að ég var farinn að fá frítt inn. Ég horfði mikið á kvikmyndir sem sýndu slagsmál og gróft ofbeldi. Umhverfi mitt og afþreyingarefni mótaði mig og ég varð ofbeldisfullur og siðlaus drykkjumaður.

 Árið 2000 fór ég að búa með ungri konu sem heitir Skolastique Kabagwira og við eignuðumst þrjú börn. Ég ætlaðist til þess að hún krypi fyrir mér í hvert sinn sem ég kæmi heim eða hún bæði mig um eitthvað en þetta viðhorf hafði ég tileinkað mér frá unga aldri. Ég var þeirrar skoðunar að allar eigur okkar fjölskyldunnar tilheyrðu mér og ég mætti nota þær eins og mér sýndist. Ég fór oft út á kvöldin og kom ekki heim fyrr en um þrjúleytið um nóttina, oftast drukkinn. Ég bankaði á dyrnar og ef Skolastique var of lengi að koma til dyra barði ég hana.

 Á þeim tíma vann ég sem yfirmaður hjá einkareknu öryggisfyrirtæki og þénaði vel. Skolastique reyndi að fá mig til að ganga í hvítasunnukirkjuna sem hún tilheyrði, eflaust í þeirri von að það myndi breyta mér. En ég hafði engan áhuga. Á sama tíma stofnaði ég til ástarsambands við aðra konu. Þetta vítaverða og siðlausa hátterni mitt varð til þess að Skolastique flutti með börnin okkar þrjú til foreldra sinna.

 Roskinn fjölskylduvinur talaði alvarlega við mig um líferni mitt. Hann hvatti mig til að taka aftur saman við Skolastique. Hann sagði að yndislegu börnin mín ættu alls ekki skilið að alast upp án föður síns. Árið 2005 lagði ég flöskuna á hilluna, sagði skilið við hina konuna og tók aftur saman við Skolastique. Við gengum síðan í hjónaband árið eftir. En ég hélt áfram að beita hana ofbeldi.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Árið 2008 bankaði vottur Jehóva upp á hjá okkur og ég hlustaði á það sem hann hafði að segja. Hann hét Joël og hann heimsótti mig reglulega um nokkurra mánaða skeið ásamt Bonaventure trúbróður sínum og við áttum heitar umræður um Biblíuna. Ég lét spurningarnar dynja á þeim, sérstaklega um Opinberunarbókina. Reyndar var markmið mitt að sýna þeim fram á að þeir hefðu á röngu að standa. Ég spurði til dæmis hvernig þeir gætu haldið því fram að múgurinn mikli í Opinberunarbókinni 7:9 myndi lifa á jörðinni þar sem versið segir að þeir ‚standi frammi fyrir hásæti Guðs og lambinu‘, það er Jesú Kristi. Joël svaraði af mikilli þolinmæði. Hann sýndi mér til að mynda Jesaja 66:1 þar sem Guð kallar jörðina ‚fótskemil sinn‘. Þessi mikli múgur stendur því á jörðinni frammi fyrir hásæti Guðs. Ég las líka Sálm 37:29 þar sem kemur fram að réttlátir muni lifa að eilífu á jörðinni.

 Þegar fram liðu stundir féllst ég á biblíunámskeið. Bonaventure kenndi okkur hjónum. Þegar náminu fleytti fram fann ég hjá mér löngun til að breyta mér. Ég lærði að sýna konunni minni virðingu og vildi ekki lengur að hún krypi fyrir mér við viss tækifæri. Ég hætti að líta svo á að allt tilheyrði mér sem fjölskyldan átti. Ég hætti einnig að horfa á ofbeldisfullar kvikmyndir. Þessar breytingar tóku á og kostuðu mikla sjálfstjórn og auðmýkt.

Biblían hjálpaði mér að verða betri eiginmaður.

 Nokkrum árum áður hafði ég sent elsta barnið okkar, hann Christian, í fóstur til ættingja okkar í Úganda. En eftir að hafa lesið 5. Mósebók 6:4–7 áttaði ég mig á því að við hjónin erum ábyrg gagnvart Guði að annast börnin okkar og það felur í sér að kenna þeim biblíuleg gildi. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar við sóttum strákinn okkar.

ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Ég hef lært að Jehóva er miskunnsamur Guð og ég trúi því og treysti að hann hafi fyrirgefið mér fyrra líferni. Ég er svo þakklátur að Skolastique skuli líka hafa haft áhuga á að kynna sér Biblíuna. Við vígðum Jehóva líf okkar og létum skírast 4. desember 2010. Núna er samband okkar byggt á gagnkvæmu trausti og við gerum okkar besta til að fylgja meginreglum Biblíunnar. Konan mín er mjög ánægð að ég kem beint heim eftir vinnu. Hún kann líka að meta að ég kem fram við hana af virðingu og kærleika, sé hættur að drekka og sé ekki lengur ofbeldismaður. Árið 2015 var ég útnefndur öldungur til að eiga þátt í að annast söfnuðinn. Þrjú barnanna okkar fimm eru skírð.

 Þegar ég fór að kynna mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva samsinnti ég ekki í blindni því sem mér var kennt. En ég hreifst af því hvernig þeir notuðu Biblíuna til að svara spurningum mínum. Við Skolastique áttuðum okkur betur og betur á því að þeir sem segjast þjóna hinum sanna Guði ættu líka að hafa sömu gildi og hann og ekki útvatna þau. Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að hafa dregið mig til sín og andlegrar fjölskyldu sinnar. Þegar ég lít yfir farinn veg er ég fullkomlega sannfærður um að allt einlægt fólk sem vill gera breytingar á lífi sínu og öðlast velþóknun Guðs getur það með hans hjálp.